Um Strandagönguna

Strandagangan er árlegur stórviðburður í íþróttalífinu á Ströndum. Hún er einnig ómissandi hluti af Íslandsgöngunni sem er röð skíðagöngumóta sem trimmnefnd Skíðasambands Íslands hefur efnt til árlega síðan 1985. Henni er ætlað að höfða til allra sem áhuga hafa á skíðaíþróttum, bæði þeim sem leitast eftir ánægjulegri og hollri útiveru og eins metnaðarfyllra keppnisfólki.

Fyrsta Strandagangan var haldin árið 1995 og hefur hún aldrei fallið niður, enda er yfirleitt hægt að finna snjóþung svæði á starfssvæði Skíðafélags Strandamanna. Gangan er fyrir alla aldurshópa, vana sem óvana. Vegalengdir eru 1 km. fyrir 12 ára og yngri og 5, 10 og 20 km. eru í boði fyrir aðra aldurshópa. Keppt hefur verið í sveitakeppni í öllum vegalengdum frá árinu 2007.

Á Strandagöngunni eru jafnan veglegir verðlaunagripir í boði. Sá veglegasti og merkilegast er án efa Sigfúsarbikarinn, en hann er farandbikar sem hlotnast þeim einstaklingi sem kemur fyrstur í mark í 20 km. göngu. Þessi glæsilegi bikar var gefinn var af Heilbrigðisstofnun Hólmvíkur árið 2003 til minningar um Sigfús Ólafsson fyrrverandi héraðslækni Strandamanna og forvígismann á sviði skíðagöngu á Ströndum á síðari árum.

Strandagangan er þó ekki síst þekkt fyrir það sem kemur í kjölfarið, en þá er keppendum boðið í veglegt kaffisamsæti og verðlaunaafhendingu. Borðin svigna jafnan undan kræsingum fyrir svanga göngugarpa og alla aðra sem vilja styðja við starfsemi Skíðafélags Strandamanna. Fyrir marga er þetta hápunktur Strandagöngunnar. 

Flettingar í dag: 44
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 152
Gestir í gær: 7
Samtals flettingar: 77511
Samtals gestir: 16216
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 13:58:38