17.03.2013 13:59

Leiðrétt úrslit

Gerð hefur verið leiðrétting á úrslitum Strandagöngunnar.  Tími Hreins Hjartarsonar frá Undralandi í Kollafirði á Ströndum misritaðist og hefur tíminn verið leiðréttur í úrslitaskjalinu.  Við biðjum Hrein afsökunar á mistökunum

 

16.03.2013 21:12

Myndir úr Strandagöngunni

Það eru komnar flottar myndir úr Strandagöngunni á vefsíðurnar hjá Ingimundi Pálssyni  (mundipals.123.is) og Jóni Halldórssyni (nonni.123.is).

16.03.2013 20:39

Úrslit Strandagöngunnar

Úrslitin úr Strandagöngunni eru komin á síðuna undir hlekknum úrslit ofarlega á síðunni.  Neðst á síðunni eru úrslitin úr sveitakeppninni. 

 

19. Strandagangan var gengin í Selárdal í blíðskaparveðri og góðum aðstæðum.  Að þessu sinni tókst að gera 10 km hring þannig að þeir sem gengu 20 km gengu 2 hringi en það hefur ekki verið hægt undanfarin ár vegna lítilla snjóalaga.   Fyrstur í mark í 20 km göngu karla var Martin Metzner sem keppir fyrir Skíðagöngufélagið Ull og fékk hann því til varðveislu næsta árið hinn glæsilega Sigfúsarbikar.  Fyrst kvenna í mark í 20 km var Stella Hjaltadóttir frá Ísafirði.Sj

 

Skíðafélag Strandamanna þakkar öllum keppendunum fyrir þátttökuna og starfsmenn göngunnar fá kærar þakkir fyrir einstaklega vel unnin störf og síðast enn ekki síst fá konurnar sem sáu um hið glæsilega kaffihlaðborð kærar þakkir fyrir.

 

Sjáumst öll í 20. Strandagöngunni árið 2014.

 

 

15.03.2013 19:13

Smurningsráð fyrir morgundaginn

Líklegur festuáburður fyrir morgundaginn í 19. Strandagöngunni er baukur fyrir hitastig um eða rétt neðan við frostmark.  Í Selárdal er lítils háttar skel á snjónum og nýr snjór þar undir sem blandast saman við þegar brautin er unnin.  Í dag og í gær hefur verið éljagangur og bætt aðeins á snjóinn í dalnum.  En spáin fyrir morgundaginn er sem fyrr góð.

15.03.2013 11:24

Spáin góð fyrir morgundaginn

Þá er allt að verða klárt fyrir Strandagönguna og veðurspáin er góð en spáð er hægviðri, sólskin með köflum og smá frost.

Í síðustu viku bættist við mikill snjór í Selárdal, en sá snjór hefur verið að breytast úr nýjum snjó í gamlan nú í vikunni.  Í gær og í morgun hafa komið fáein él í dalinn.  Líklega er klísturfæri t.d.  multigrade með bauk yfir en nánari upplýsingar um færið verða settar á síðuna í kvöld.

 

Við minnum fólk á að muna eftir að skrá sig í sveitakeppnina.

15.03.2013 07:56

Dagskrá Strandagöngunnar

Föstudagur 15. mars:  Skráningu í tölvupósti lýkur um kvöldið

 

Laugardagur 16. mars: 

kl. 11-12 Skráning á staðnum og afhending númera

kl. 12.20 start í 1 km

kl. 13 Start í 5, 10 og 20 km

Íþróttamiðstöððin á Hólmavík opnar kl. 14 og þar er hægt að fara í sturtu og heita potta eftir göngu.

kl. 16 Verðlaunaafhenging og kaffihlaðborð í Félagsheimilinu á Hólmavík.  Númerum skilað við innganginn og gilda sem aðgangur að kaffihlaðborðinu.  Frítt á kaffihlaðborðið fyrir starfsmenn en aðrir greiða 1.000 kr.

 

Sunnudagur 17. mars:

kl. 10-12 Skíðaleikjahátíð í Selárdal

kl. 12.30 Pizzahlaðborð á Café riis

 

 

13.03.2013 09:29

Brautin í Strandagöngunni

Strandagangan verður haldin í Selárdal á laugardaginn og gengur brautarlagning vel.  5 km brautin verður mjög svipuð og brautin sem gengin var í fyrra en liggur þó ekki alveg fram að Geirmundarstöðum.  Í 10 og 20 km verður genginn 10 km hringur sá sami og í 5 km en gengið svo fram fyrir neðan Geirmundarstaði framundir Gilsstaði og snúið þar við.  Það er gaman að geta þess að á Gilsstöðum er Rósmundur Númason formaður Skíðafélags Strandamanna fæddur og uppalinn og verður því á heimavelli þegar komið er þangað frameftir.   Frá Gilsstöðum verður svo gengið til baka niður dalinn en farið fyrir ofan Geirmundarstaði.

 

Skráning gengur vel og streyma skráningar inn.  Með staðfestingu á skráningu verða sendar út upplýsingar um bankareikning sem hægt er að leggja skráningargjaldið inná.

 

Veðurspáin er frábær en í dag spáir yr.no logni, sólskini og 4 gráðu frosti.

11.03.2013 10:56

Góð veðurspá fyrir Strandagönguna

Í dag eru 5 dagar í 19. Strandagönguna, undirbúningur fyrir gönguna gengur vel og stefnir í fjölmenna göngu.  Spáin fyrir laugardaginn er góð en norska veðurspásíðan yr.no spáir hægum norðanvindi, sólskini með köflum og 4 gráðu frosti í Selárdal.

 

Í dag verður troðinn 5 km braut í Selárdal sem verður tilbúin eftir kl. 2 og verður troðin braut í dalnum alla daga fram að Strandagöngu. í

 

Í gær héldum við Skíðafélagsmót með hefðbundinni aðferð í Selárdal í frábæru færi og aðstæðum, úrslitin verða sett á netið síðar en verið er að vinna að nýrri vefsíðu fyrir Skíðafélag Strandamanna sem kemst vonandi í gagnið í vikunni.

09.03.2013 10:54

Skíðafélagsmót og skíðagöngunámskeið á morgun

Á morgun sunnudaginn 10. mars verður Skíðafélagsmót með hefðbundinni aðferð haldið í Selárdal og hefst kl. 13.  Mótið er öllum opið og eru vegalengdir eftirfarandi:

Karlar 17 ára og eldri 10 km

Konur 17 ára og eldri 5 km

Strákar 15-16 ára og stelpur 15-16 ára 5 km

Strákar 13-14 ára og stelpur 13-14 ára 3,5 km

Strákar 11-12 ára og stelpur 11-12 ára 2,5 km

Strákar 9-10 ára og stelpur 9-10 ára 2 km

Strákar 8 ára og yngri og stelpur 8 ára og yngri 1 km

Fjölmennum á mótið og æfum okkur í leiðinni fyrir Strandagönguna 16. mars

 

Á morgun sunnudaginn 10. mars verður einnig haldið skíðagöngunámskeið fyrir almenning í Selárdal kl. 14.30.  Námskeiðið er jafnt fyrir byrjendur sem lengra komna.  Á námskeiðinu verða kennd undirstöðuatriðin í hefðbundinni skíðagöngu ásamt því að þeir sem eru lengra komnir fá tilsögn með að fínslípa tækniatriðin.  Einnig er fyrirhugað að halda annað námskeið þriðjudaginn 12. mars kl. 18 í Selárdal.  Möguleiki er á að fá lánuð skíði skó og stafi á staðnum en þá þarf að hafa samband við Ragnar (8933592) eða Rósmund (8921048) og gefa upp hæð og skóstærð.

 

Nú eru frábærar aðstæður í Selárdal hellingur af snjó og góð veðurspá næstu daga, í gær var troðin 3 km braut í dalnum og eru góðar líkur á að hún sé enn í lagi í dag. 

 

08.03.2013 12:59

Skíðaleikjahátíð 17. mars

Skíðafélag Strandamanna bætir við viðburði um Strandagönguhelgina og býður til Skíðaleikjahátíðar sunnudaginn 17. mars kl. 10-12.  Ef nægur snjór verður á Hólmavík verður hátíðin haldin þar en annars í Selárdal ef ekki verður nægur snjór á Hólmavík.  Farið verður í alla skemmtilegustu skíðaleikina t.d. stórfiskaleik, hákarlaleik, skottaleik og fleiri frábæra leiki einnig verða settar upp þrautabrautir.  Hátíðin er öllum opin sem hafa gaman af skemmtilegum skíðaleikjum og eru jafnt ungir sem aldnir velkomnir.  Eftir hátíðina er þátttakendum boðið á pizzahlaðborð frá café Riis fyrir 1.000 kr. á mann.  Nánari upplýsingar veitir Ragnar í síma 8933592.  Skráning á hátíðina er hjá Aðalbjörgu Óskarsdóttir á netfangið [email protected] en hún tekur einnig á móti skráningum í Strandagönguna.  Skráningar á skíðaleikjahátíðina þurfa að berast í síðasta lagi miðvikudaginn 13. mars. 

26.02.2013 21:18

Skráning er hafin í Strandagönguna

Skráning er hafin í Strandagönguna, vinsamlegast sendið skráningar í tölvupósti á netfangið [email protected]  Í skráningunni þurfa að koma fram eftirfarandi upplýsingar:  Nafn keppanda, félag eða hérað sem keppt er fyrir, fæðingarár, vegalengd, einnig er ágætt að láta fylgja með símanúmer í gemsa.  Við minnum fólk einnig á að skrá sig í sveitakeppnina sem er í öllum vegalengdum göngunnar.

Þrátt fyrir hláku undanfarna daga eru aðstæður í Selárdal góðar og nægur snjór í dalnum.  Seinnipartinn í dag lögðum við 3 km braut og var fín mæting á skíðaæfingu dagsins.

29.01.2013 11:46

Strandagangan 2013

Strandagangan árið 2013 verður haldin laugardaginn 16. mars.

Flettingar í dag: 110
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 85
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 35309
Samtals gestir: 4293
Tölur uppfærðar: 7.2.2023 21:18:15