09.03.2022 22:11
Gott útlit fyrir Strandagönguna á laugardaginn
Undirbúningur fyrir Strandagönguna 12. mars 2022 gengur vel og spáin fyrir laugardaginn er sérstaklega góð en spáð er hægri suðlægri átt, sólskini með köflum og 2 stiga hita um hádegi á keppnisdaginn.
Við minnum á að skráningarfrestur rennur út á miðnætti annað kvöld fimmtudag 10. mars en það eru ennþá töluvert eftir af lausum plássum í gönguna. Nú í kvöld hefur 181 keppandi skráð sig í gönguna.
Þar sem vel þótti takast til með fljótandi startið sem var í göngunni í fyrra í fyrsta skipti var ákveðið að hafa sama fyrirkomulag á göngunni núna. Fljótandi start verður í Strandagönguna 12. mars milli kl. 11 og 12 sem þýðir að tímatakan fyrir hvern og einn keppanda fer af stað um leið og viðkomandi leggur af stað yfir startlínuna milli kl. 11 og 12. Það verður elítustart kl. 11 sem er tilvalið fyrir þá sem vilja fara hraðar yfir en hverjum sem er er frjálst að taka þátt í elítustartinu. Fyrsti karl og fyrsta kona í mark í 20 km fá farandbikar til varðveislu næsta árið þannig að fyrir þau sem vilja eiga raunhæfa möguleika á þeim bikurum er best að mæta í elítustartið.