Færslur: 2022 Mars

13.03.2022 08:48

Strandagangan 2022 gekk vel!

Strandagangan var haldin í 28. sinn, í gær laugardaginn 12.mars í blíðskaparveðri, sól, sunnan golu og tveggja stiga hita. 185 keppendur tóku þátt í 5, 10, og 20 km göngu auk fjölda sjálfboðaliða sem tóku þátt í framkvæmd göngunnar á einn eða annan hátt, allt frá bakstri til brautargæslu. Verðlaun eru gefin af Martak í Grindavík og kann félagið þeim bestu þakkir fyrir. 

 

Fyrstur í mark í karlaflokki í 20 km göngunni var Ísfirðingurinn Sveinbjörn Orri Heimisson sem varði titil sinn sem sigurvegari 20 km göngunnar eftir gríðarlega harða keppni við Ólafsfirðinga Sigurbjörn Þorgeirsson, sem lenti í öðru sæti  og Helga Reyni Árnason sem lenti í þriðja sæti. 

Fyrsta konan í mark í 20 km var hin norska Lilli Olafstad sem keppir fyrir Skíðafélag Ísafjarðar, í öðru sæti Salóme Grímsdóttir Ulli og í þriðja var Edda Vésteinsdóttir. 

Í 10 km göngu var Hjalti Böðvarsson Ulli í fyrsta sæti, Grétar Smári Samúelsson Ísafirði í öðru og Stefán Þór Birkisson Strandamaður í þriðja sæti. 

Í 10 km göngu kvenna var Dagný Emma Kristinsdóttir frá Ísafirði í fyrsta sæti, í öðru sæti Árný Helga Birkisdóttir Strandakona og í þriðja sæti var María Kristín Ólafsdóttir Ulli. 

Í 5 km göngu karla var Jökull Ingimundur Hlynsson Strandamaður í fyrsta sæti, Friðgeir Logi Halldórsson Strandamaður í öðru sæti og Daði Wendel Ulli í þriðja sæti. 

Í 5 km flokki kvenna var Vala Kristín Georgsdóttir Ulli í fyrsta sæti, Sóley Erla Arnarsdóttir Ulli í öðru sæti og í þriðja sæti var Bergrós Vilbergsdóttir Skíðafélagi Strandamanna. 

Hægt er að sjá öll úrslit á https://timataka.net/strandagangan2022/ 

 

Skíðafélag Strandamanna þakkar keppendum, starfsfólki og áhorfendum kærlega fyrir góðan dag í Selárdal og vonast til að sjá sem flesta  á 29. Strandagöngunni sem haldin verður 11. mars 2023.  

09.03.2022 22:11

Gott útlit fyrir Strandagönguna á laugardaginn

Undirbúningur fyrir Strandagönguna 12. mars 2022 gengur vel og spáin fyrir laugardaginn er sérstaklega góð en spáð er hægri suðlægri átt, sólskini með köflum og 2 stiga hita um hádegi á keppnisdaginn.  

 

Við minnum á að skráningarfrestur rennur út á miðnætti annað kvöld fimmtudag 10. mars en það eru ennþá töluvert eftir af lausum plássum í gönguna.  Nú í kvöld hefur 181 keppandi skráð sig í gönguna.

 

Þar sem vel þótti takast til með fljótandi startið sem var í göngunni í fyrra í fyrsta skipti  var ákveðið að hafa sama fyrirkomulag á göngunni núna.  Fljótandi start verður í Strandagönguna 12. mars milli kl. 11 og 12 sem þýðir að tímatakan fyrir hvern og einn keppanda fer af stað um leið og viðkomandi leggur af stað yfir startlínuna milli kl. 11 og 12.  Það verður elítustart kl. 11 sem er tilvalið fyrir þá sem vilja fara hraðar yfir en hverjum sem er er frjálst að taka þátt í elítustartinu.  Fyrsti karl og fyrsta kona í mark í 20 km fá farandbikar til varðveislu næsta árið þannig að fyrir þau sem vilja eiga raunhæfa möguleika á þeim bikurum er best að mæta í elítustartið.

  • 1
Flettingar í dag: 56
Gestir í dag: 14
Flettingar í gær: 93
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 77910
Samtals gestir: 16350
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 18:11:55