17.01.2023 22:54

Skráning í Strandagönguna er hafin

Skráning í 29. Strandagönguna sem haldin verður í Selárdal 11. mars 2023 er hafin og fer skráningin fram í gegnum vefsíðuna netskraning.is 

13.03.2022 08:48

Strandagangan 2022 gekk vel!

Strandagangan var haldin í 28. sinn, í gær laugardaginn 12.mars í blíðskaparveðri, sól, sunnan golu og tveggja stiga hita. 185 keppendur tóku þátt í 5, 10, og 20 km göngu auk fjölda sjálfboðaliða sem tóku þátt í framkvæmd göngunnar á einn eða annan hátt, allt frá bakstri til brautargæslu. Verðlaun eru gefin af Martak í Grindavík og kann félagið þeim bestu þakkir fyrir. 

 

Fyrstur í mark í karlaflokki í 20 km göngunni var Ísfirðingurinn Sveinbjörn Orri Heimisson sem varði titil sinn sem sigurvegari 20 km göngunnar eftir gríðarlega harða keppni við Ólafsfirðinga Sigurbjörn Þorgeirsson, sem lenti í öðru sæti  og Helga Reyni Árnason sem lenti í þriðja sæti. 

Fyrsta konan í mark í 20 km var hin norska Lilli Olafstad sem keppir fyrir Skíðafélag Ísafjarðar, í öðru sæti Salóme Grímsdóttir Ulli og í þriðja var Edda Vésteinsdóttir. 

Í 10 km göngu var Hjalti Böðvarsson Ulli í fyrsta sæti, Grétar Smári Samúelsson Ísafirði í öðru og Stefán Þór Birkisson Strandamaður í þriðja sæti. 

Í 10 km göngu kvenna var Dagný Emma Kristinsdóttir frá Ísafirði í fyrsta sæti, í öðru sæti Árný Helga Birkisdóttir Strandakona og í þriðja sæti var María Kristín Ólafsdóttir Ulli. 

Í 5 km göngu karla var Jökull Ingimundur Hlynsson Strandamaður í fyrsta sæti, Friðgeir Logi Halldórsson Strandamaður í öðru sæti og Daði Wendel Ulli í þriðja sæti. 

Í 5 km flokki kvenna var Vala Kristín Georgsdóttir Ulli í fyrsta sæti, Sóley Erla Arnarsdóttir Ulli í öðru sæti og í þriðja sæti var Bergrós Vilbergsdóttir Skíðafélagi Strandamanna. 

Hægt er að sjá öll úrslit á https://timataka.net/strandagangan2022/ 

 

Skíðafélag Strandamanna þakkar keppendum, starfsfólki og áhorfendum kærlega fyrir góðan dag í Selárdal og vonast til að sjá sem flesta  á 29. Strandagöngunni sem haldin verður 11. mars 2023.  

09.03.2022 22:11

Gott útlit fyrir Strandagönguna á laugardaginn

Undirbúningur fyrir Strandagönguna 12. mars 2022 gengur vel og spáin fyrir laugardaginn er sérstaklega góð en spáð er hægri suðlægri átt, sólskini með köflum og 2 stiga hita um hádegi á keppnisdaginn.  

 

Við minnum á að skráningarfrestur rennur út á miðnætti annað kvöld fimmtudag 10. mars en það eru ennþá töluvert eftir af lausum plássum í gönguna.  Nú í kvöld hefur 181 keppandi skráð sig í gönguna.

 

Þar sem vel þótti takast til með fljótandi startið sem var í göngunni í fyrra í fyrsta skipti  var ákveðið að hafa sama fyrirkomulag á göngunni núna.  Fljótandi start verður í Strandagönguna 12. mars milli kl. 11 og 12 sem þýðir að tímatakan fyrir hvern og einn keppanda fer af stað um leið og viðkomandi leggur af stað yfir startlínuna milli kl. 11 og 12.  Það verður elítustart kl. 11 sem er tilvalið fyrir þá sem vilja fara hraðar yfir en hverjum sem er er frjálst að taka þátt í elítustartinu.  Fyrsti karl og fyrsta kona í mark í 20 km fá farandbikar til varðveislu næsta árið þannig að fyrir þau sem vilja eiga raunhæfa möguleika á þeim bikurum er best að mæta í elítustartið.

14.02.2022 22:24

Dagskrá Strandagöngunnar

Hér eru drög að dagskrá 28. strandagöngunnar sem haldin verður í Selárdal 12. mars.  Birt með fyrirvara um breytingar er nær dregur t.d. vegna sóttvarnarreglna.

 Dagskrá Strandagöngunnar 2022

 

Föstudagur 11. mars:  

Kl. 18-20 Afhending keppnisgagna í Selárdal

 

Laugardagur 12.mars :

Kl. 9-12 Afhending keppnisgagna í Selárdal

Kl. 11 Elítustart í 20 km vegalengd

kl. 11-12 fljótandi start í 5, 10 og 20 km vegalengdum

Kl. 14-17 Kaffihlaðborð í Félagsheimilinu á Hólmavík

kl. 15 Tímatöku hætt í Selárdal

Kl. 16 verðlaunaafhending í Félagsheimilinu á Hólmavík

 

Sunnudagur 13. mars:

Kl. 11-13 Skíðaleikjadagur fyrir börn og unglinga í Selárdal

Kl. 11-13 Skíðaferð fram á Selárdal

14.02.2022 12:11

Skráning í Strandagönguna 2022 er hafin

Skráning í Strandagönguna 2022 er hafin og fer fram á netskraning.is

01.02.2022 12:53

Strandagangan 12. mars

28. Strandagangan verður haldin í Selárdal 12. mars 2022, skráning í gönguna hefst í þessari viku á netskraning.is

14.03.2021 21:00

Sveinbjörn Orri og Mari sigurvegarar í 20 km

Í dag var 27. Strandagangan haldin í Selárdal. Skráðir keppendur voru 196 en 168 luku keppni við nokkuð erfiðar aðstæður í strekkingsvindi og skafrenningi á köflum en hægði þegar á leið. Sigurvegarar í 5 km eru Hilda Steinunn Egilsdóttir og Daði Pétur Wendel. Í 10 km sigruðu Erla Sigurlaug Sigurðardóttir og Stefán Þór Birkisson. Mari Järsk og Sveinbjörn Orri Heimisson voru með besta tímann í 20 km vegalengdinni og varðveita farandbikara Strandagöngunnar næsta árið.  Heildarúrslit úr Strandagöngunni er að finna á timataka.net Vegna sóttvarna voru engar drykkjarstöðvar í göngunni og því miður ekki hægt að hafa kaffihlaðborð og verðlaunaafhendingu. Startað var út með fljótandi starti sem að okkar mati heppnaðist mjög vel. Við þökkum öllum keppendum kærlega fyrir komuna og starfsfólk mótsins fær bestu þakkir fyrir vel unnin störf. Sjáumst í 28. Strandagöngunni í mars 2022

13.03.2021 10:25

Nokkur atriði varðandi Strandagönguna

Nokkur atriði til að minna á varðandi Strandagönguna:

 

Í dag laugardag kl. 17-19 verður hægt að sækja keppnisgögn í Íþróttamiðstöðina á Hólmavík

 

Á morgun sunnudag kl. 10-13 afhending keppnisgagna í Selárdal.

Fljótandi start í 5, 10 og 20 km kl. 11-13

Tímatöku hætt kl. 16

 

Vegna sóttvarna verða engar drykkjarstöðvar í göngunni þannig að keppendur þurfa að koma með sitt eigið drykkjarílát og drykki

 

Að þessu sinni verður því miður ekkert kaffihlaðborð

 

Að göngu lokinni er hægt að fara í sund og heita potta t.d. á Hólmavík, Drangsnesi eða Laugarhól Bjarnarfirði

12.03.2021 10:56

Strandagöngunni frestað til 14. mars

Strandagöngunni er frestað til sunnudagsins 14. mars.   Ákvörðun hefur verið tekin með tilliti til veðurspár og færðar á vegum um að fresta Strandagöngunni til sunnudagsins 14. mars.  

 

Dagskrá Strandagöngunnar sunnudaginn 14. mars:

 

Kl. 10-13 afhending keppnisgagna í skíðaskálanum í Selárdal

kl. 11-13 fljótandi start í öllum vegalengdum

kl. 16 tímatöku hætt

10.03.2021 18:08

Dagskrá Strandagöngunnar

Dagskrá Strandagöngunnar  sem haldin verður næstkomandi laugardag 13. mars er tilbúin, en að þessu sinni er dagskráin með einfaldasta móti vegna covid-19, t.d. fellur leikjadagurinn niður og ekki verður farið í skipulagða hópferð á skíðum á sunnudeginum eins og verið hefur undanfarin ár.  Einnig verður ekkert kaffihlaðborð og verðlaunagripir verða sendir út í vikunni eftir gönguna.  Ekki verður um eiginlegt hópstart að ræða í Strandagöngunni heldur verður startað út með fljótandi starti milli klukkan 11 og 13 laugardaginn 13. mars sem er eins fyrirkomulag og var í Fossavatnsgöngunni 2019.  Fljótandi start þýðir að keppendur leggja af stað þegar þeir eru tilbúnir og fara yfir tímatökumottu á startlínunni sem setur af stað tímatöku fyrir hvern keppanda fyrir sig þegar hann fer yfir startlínuna, tímatakan stöðvast svo með hefðbundnum hætti þegar komið er yfir marklínuna.  Þetta fyrirkomulag er í samráði við sóttvarnaryfirvöld og er ætlað til að minnka eins og mögulegt er hópamyndun á start og marksvæði.  Að göngu lokinni er æskilegt að fólk safnist ekki saman við marksvæðið heldur hugi að brottför eins fljótt og hægt er.

 

Dagskrá Strandagöngunnar 2021

 

Föstudagur 12. mars:  

Kl. 18-20 Afhending keppnisgagna í Íþróttamiðstöðinni Hólmavík

 

Laugardagur 13.mars :

Kl. 10-13 Afhending keppnisgagna í Selárdal

kl. 11-13 fljótandi start í 5, 10 og 20 km vegalengdum

kl. 16 Tímatöku hætt

 

 

02.03.2021 15:21

Skráning er hafin í Strandagönguna

Skráning í Strandagönguna 2021 er hafin, tengill á skráninguna er að finna á facebooksíðu Strandagöngunnar.

19.01.2021 22:28

Strandagangan 13. mars

27. Strandagangan verður haldin í Selárdal 13. mars 2021.  Nánari upplýsingar verða settar inn á næstu vikum hér á síðuna og á facebooksíðu Strandagöngunnar.

25.02.2020 20:35

Dagskrá Strandagöngunnar

Hér er uppfærð dagskrá 26. Strandagöngunnar sem haldin verður í Selárdal 7. mars 2020:

 

Föstudagur 6. mars:  

Kl. 17-20 Keppnisbrautir Strandagöngunnar opnar í Selárdal

Kl. 17-20 Afhending keppnisgagna í skíðaskálanum í Selárdal

 

Laugardagur 7.mars :

Kl. 9-11.30 Afhending keppnisgagna í Selárdal

kl. 11.30 start í 1 km vegalengd og forstart í 20 km

kl. 12 start í 5, 10 og 20 km vegalengdum

kl. 14-16.30 kaffihlaðborð í Félagsheimilinu á Hólmavík

kl. 15.30 verðlaunaafhending í Félagsheimilinu á Hólmavík

kl. 16 Tímatöku hætt

 

Sunnudagur 8. mars:

Kl. 11-13 Skíðaleikjadagur í Selárdal

Kl. 11 Skíðaferð í Selárdal frá Brandsholti að Þjóðbrókargili

Eftir skíðaferðina og skíðaleikjadaginn verður pítsahlaðborð í skíðaskálanum í Selárdal

 

20.02.2020 13:19

Undirbúningur gengur vel

Undirbúningur fyrir Strandagönguna 7. mars gengur vel og skráningarnar streyma inn í gegnum netskraning.is, við minnum á að skráningargjaldið hækkar eftir 10 daga eða eftir 1. mars og því um að gera að skrá sig sem fyrst.

Mikill snjór er í dalnum, aðstæður góðar og verður því genginn 10 km hringur í Strandagöngunni fram að Gilsstöðum í Selárdal.

Á facebooksíðu Strandagöngunnar eru nokkrar myndir flestar teknar í góða veðrinu í gær. Unnið hefur verið að því undanfarið að klæða snjóbílshluta skíðaskálans að innan og í gær mættu starfsmenn Orkubús Vestfjarða í Selárdal til að lagfæra ljóskastara í brautinni.

06.02.2020 18:03

 Skráning í Strandagönguna 7. mars 2020 fer fram á netskraning.is

 

Skráningargjald til og með 1. mars

 

20 km 5.000 kr

10 km 4.000 kr

5 km 3.000 kr

1 km 1.000 kr

 

Skráningargjald 2.-7. mars

 

20 km 8.000 kr

10 km 6.000 kr

5 km 4.000 kr

1 km 1.000 kr

Flettingar í dag: 117
Gestir í dag: 17
Flettingar í gær: 226
Gestir í gær: 21
Samtals flettingar: 136164
Samtals gestir: 24077
Tölur uppfærðar: 20.11.2024 23:36:30